Fara í efni

Algengar spurningar

Lífeyrismál:

Hvernig sæki ég um lífeyri?

Þú getur sótt um lífeyrir rafrænt hér og fyllt út umsóknarform um eftirlaun.

Sjóðurinn sendir umsóknina áfram til annarra sjóða sé þess óskað.

Hvenær get ég byrjað á eftirlaunum?

Það er breytilegt eftir deildum hvenær mögulegt er að byrja á eftirlaunum.

A og V deild

Sjóðfélagar í A og V deild sjóðsins hafa val um að fara á eftirlaun milli 60 og 80 ára aldurs og þurfa þeir ekki að vera hættir störfum þegar taka lífeyris hefst.

Viðmiðunaraldur lífeyristöku er 67 ár. Mánaðarlegar greiðslur lækka eða hækka í samræmi við flýtingu eða frestun á töku lífeyris.

Lífeyrisréttindi A og V deildar:

  • Hækka um 0,6-3,10% fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað fram yfir 67 ára.
  • Lækka um 0,35%-0,60% fyrr hvern mánuð sem er töku lífeyris er flýtt fyrir 67 aldur.

Heimilt er að hefja töku lífeyris samhliða vinnu, iðgjöld greiðast þá áfram í lífeyrissjóð.

Sjá nánar um starfslok A og V deildar hér.

B deild

Sjóðfélagar í B deild sem eru orðnir 65 ára og hafa látið af störfum hjá sínu sveitarfélagi geta hafið töku lífeyris.

Mögulegt er að hefja lífeyristöku fyrr ef sjóðfélagi hefur náð 95 ára reglunni sem er samanlagður sjóðfélagaaldur og lífaldur.

Sjá nánar um starfslok B deildar hér.

Hvað er makalífeyrir?

Falli sjóðfélagi frá hefur maki rétt á makalífeyri miðað við áunnin réttindi. Réttindi makalífeyris fara eftir því í hvaða deild sjóðfélagi greiddi í.

Makalífeyrir V deild

Falli sjóðfélagi frá fær maki hans borgaðan lífeyri sem nemur helming af framreiknuðum lífeyri í tvö ár, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

  • Skilyrði að sjóðfélagi sé virkur sjóðfélagi fyrir andlát eða hafi áunnið sér ákveðin réttindi.
  • Fullur réttur maka er 50% af lífeyrisréttindum sjóðfélaga - framreiknað.
  • Fullur réttur í 24 mánuði.
  • Fullur réttur ef barn er yngra en 18 ára.
  • Fullur réttur ef maki er meira en 50% öryrki og yngri en 67 ára við fráfall sjóðfélaga.

Nánar um V deild

Makalífeyrir A deild

Falli sjóðfélagi frá fær maki hans borgaðan lífeyri í fimm ár, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum:

  • Sjóðfélagi sé virkur sjóðfélagi fyrir andlát eða hafi notið lífeyrisgreiðslna úr sjóðnum.
  • Fullur réttur er 50% af lífeyrisréttindum sjóðfélaga - framreiknað.
  • Maki fær helming af lífeyrisréttindum sjóðfélaga fyrstu 36 mánuðina. Að þeim tíma liðnum helmingast upphæðin næstu 24 mánuði.
  • Fullur réttur ef barn er yngra en 22 ára.
  • Fullur réttur ef maki er meira en 50% öryrki og yngri en 67 ára við fráfall sjóðfélaga.

Nánar um A deild

Makalífeyrir B deild

  • Maki hefur rétt á 50% af áunnum réttindum fráfallsins sjóðfélaga ævilangt.
  • Maki fær 20% viðbótarálag ef sjóðfélagi hefur látist í starfi eða á eftirlaunum í beinu framhaldi af starfi.
  • Makalífeyrir fellur niður ef maki hefur sambúð eða gengur í hjónaband að nýju.

Nánar um B deild

Hvað er örorkulífeyrir?

Verði sjóðfélagi fyrir tekjuskerðingu vegna orkutaps gæti hann átt rétt á örorkulífeyri.

Réttindi örorkulífeyris fer eftir því í hvaða deild sjóðfélagi greiðir í:

Örorkulífeyrir A deild

  • Sjóðfélagi þarf að vera metin af lækni til meira en 40% örorku.
  • Örorkulífeyrir er framreiknaður til 65 ára aldurs að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
  • Örorkulífeyrir fer eftir mati á örorkuprósentu (dæmi: 45% örorka veitir 45% réttindi).
  • Örorka miðast við vanhæfni til að gegna starfi sem sjóðfélagi vann þegar hann var metinn til örorku í 5 ár. Eftir þann tíma er örorka hans endurmetin miðað við hæfni til að gegna almennum störfum.

Nánari upplýsingar hér

Örorkulífeyrir V deild

  • Sjóðfélagi þarf að vera metin af lækni til meira en 50% örorku.
  • Örorkulífeyrir er framreiknaður til 65 ára aldurs að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
  • Örorkulífeyrir fer eftir mati á örorkuprósentu (dæmi: 50% örorka veitir 50% réttindi).
  • Örorka miðast við vanhæfni til að gegna starfi sem sjóðfélagi vann þegar hann var metinn til örorku í 3 ár. Eftir þann tíma er örorka hans endurmetin miðað við hæfni til að gegna almennum störfum.

Nánari upplýsingar hér.

Örorkulífeyrir B deild

  • Sjóðfélagi þarf að hafa greitt í sjóðinn og vera metin af lækni til meira en 10% örorku.
  • Örorkulífeyrir er framreiknaður til 65 ára aldurs að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
  • Örorkulífeyrir fer eftir mati á örorkuprósentu (dæmi: 45% örorka veitir 45% réttindi).

Nánari upplýsingar hér

Hvað er barnalífeyrir

Við fráfall eða örorku sjóðfélaga geta börn sjóðfélaga fengið greiddan barnalífeyri.

Barnalífeyrir A deild

  • Börn fá greiddan barnalífeyrir til 22 ára aldurs.
  • Barnalífeyrir er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs.
  • Barnalífeyrir er greiddur sjóðfélaga fram til 18 ára aldurs barns. Frá 18 ára aldri fram til 22 ára aldurs fær barnið greiddan barnalífeyri.

Nánari upplýsingar hér.

Barnalífeyrir V deild

  • Börn fá greiddan barnalífeyrir til 18 ára aldurs.
  • Barnalífeyrir er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs.
  • Barnalífeyrir er greiddur sjóðfélaga

Nánari upplýsingar hér.

Barnalífeyrir B deild

  • Börn fá greiddan barnalífeyrir til 18 ára aldurs.
  • Barnalífeyrir er greiddur sjóðfélaga

Nánari upplýsingar hér.

Hvaða breytingar verða á A og V deild 1. janúar 2024?

 

Breytingar verða á réttindaöflun í A og V deild 1. janúar 2024. 

Hér má sjá yfirlit yfir breytingar

Breytingarnar varða framtíðarréttindi í jafnri ávinnslu í A deild en einnig verða áunnin réttindi í bæði A deild og V deild sjóðsins lækkuð um 10%.

Ástæða breytinganna er fyrst og fremst nýtt reiknilíkan Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga á lífslíkum sem tók gildi í árslok 2021 þar sem gert er ráð fyrir að lífaldur muni halda áfram að hækka sem leiddu til að skuldbindingar sjóðsins hækkuðu verulega og umfram lagaleg viðmið en einnig hafði slök ávöxtun sjóðsins á árinu 2022 neikvæð áhrif á stöðu sjóðsins.

B-deild: Hver er munurinn á eftirmannsreglu og meðaltalsreglu?

Meðaltalsregla: Lífeyrir miðast við lokastarfslaun sjóðfélaga og síðan er vísitölu launa opinberra starfsmanna fylgt.

Eftirmannsregla: Lífeyrir miðast við lokastarfslaun sjóðfélaga og fylgir síðan launum eftirmanns sjóðfélaga í starfi og kjarasamningum.

Hvar fæ ég upplýsingar um rétt minn til eftirlauna?

Á sjóðfélagavef Brúar, undir flipanum lífeyrisgáttin, má nálgast upplýsingar um lífeyrisréttindi í þeim sjóðum sem þú hefur greitt í, að undanskildum séreignasparnaði.

 

Er hægt að skipta lífeyrisréttindum milli hjóna og sambúðarfólks?

Já það er hægt að skipta lífeyrisréttindum milli hjóna og sambúðarfólks með þrenns konar hætti, en skiptingin tekur ekki til örorku-,maka- eða barnalífeyris:

  • Skipta þeim ellilífeyrisgreiðslum sem þegar eru hafnar.
  • Skipta áunnum ellilífeyrisréttindum, enda sé það gert í síðasta lagi áður en sjóðfélaginn hefur náð 65 ára aldri.
  • Skipta framtíðarréttindum, þ.e. þeim ellilífeyrisréttindum sem munu ávinnast eftir að samkomulag um skiptinguna hefur verið gert.

Eftirfarandi eyðublöð þurfa að fylgja með við umsókn um skiptingu lífeyrisréttinda. Hægt er að koma þeim til skila í tölvupósti, eða koma með þau til okkar í Sigtún 42 á milli 9-16.

Fylgiskjöl til útfyllingar:

Nánari upplýsingar um ferilinn er að finna á vefsíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.

Hvað felst í 95 ára reglunni?

Þeir sem eiga rétt á 95 ára reglunni eru sjóðfélagar sem hafa greitt í B deild sjóðsins og samanlagður lífaldur og iðgjaldagreiðslutími þeirra nær 95 árum, fyrir 64 ára aldur.

Hámarkslífeyrisréttindi þegar 95 ára markinu er náð er 64%.

Þegar 95 ára markinu er náð:

- Getur sjóðfélagi hafið töku lífeyris, þó í fyrsta lagi 60 ára.

- Getur sjóðfélagi verið iðgjaldafrír. Það þýðir að launagreiðandi greiðir 4% iðgjald sjóðfélaga til viðbótar við 8%mótframlag.

- Eru hámarksréttindi til lífeyris 64%.

- Frá 60 ára aldri til 70 ára aldurs vinnur sjóðfélagi sér 2% réttindi á ári.

Sjá nánar hér

Hvað felst í 32 ára reglunni?

Sjóðfélagar sem hafa greitt í B deild sjóðsins í 32 ár m.v. fullt starf hafa rétt á að nýta sér 32 ára regluna.

Það sem felst í 32 ára reglunni er að sjóðfélagi getur valið að verið iðgjaldafrír, þá borgar launagreiðandinn einnig iðgjaldaframlag sjóðfélaga, 4%. Kallast það að vera iðgjaldafrír.

- Geta í fyrsta lagi hafið töku lífeyris 65 ára.

Ef sjóðfélagi hefur náð 32 ára reglunni fyrir 65 ára aldur hefur hann val um að:

  • Vinna til 65 ára aldurs og vera iðgjaldafrír og ávinna 1% réttinda á ári ofan á fyrir fram áuninn réttindi, 64% (2% x 32 ár).
  • Vera iðgjaldafrír til 65 ára aldurs og ávinna 1% réttindi, til 65 ára aldurs, en halda áfram að vinna eftir 65 ára og vera iðgjaldafrír og safna 2% réttinda á ári til starfsloka.

Sjá nánar, sýnidæmi, hér

Býður Brú upp á viðbótarlífeyrissparnað?

Brú lífeyrissjóður býður ekki upp á viðbótarlífeyrissparnað (séreignarsjóð).

En sjóðfélögum V deildar Brúar lífeyrissjóðs stendur til boða að ráðstafa hluta mótframlags, allt að 3,5%, í viðbótarlífeyrissparnað (séreign) hjá séreignarsjóði. Ef þú ert ekki með virkan samning um ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar þarftu fyrst að gera slíkan samning.

Nánari upplýsingar um V deild.

Viðbótarlífeyrissparnaður nýtist við kaup á fyrstu íbúð, kaupendur geta notað viðbótarlífeyrissparnað við kaup á fasteign eða til greiðslu inn á húsnæðislán. Nánari upplýsingar má finna hjá RSK

Þurfa erlendir ríkisborgarar að greiða iðgjöld í lífeyrissjóði?

Erlendir ríkisborgarar sem fá greidd laun hér á landi greiða í lífeyrissjóð eftir sömu reglum og íslenskir ríkisborgarar.

Hvernig nálgast ég staðfestingu á lífeyrisgreiðslum fyrir TR?

Staðfesting á lífeyrisgreiðslum má nálgast með rafrænum skilríkjum eða Íslykli á sjóðfélagsvefnum undir lífeyrisgreiðslur.

Þurfa þeir sem eru sjálfstætt starfandi að greiða í lífeyrissjóð?

Sjálfstæðir atvinnurekendur þurfa eins og launamenn að greiða í lífeyrissjóð. Samkvæmt lögum ber að greiða að lágmarki 15,5% af reiknuðu endurgjaldi í lífeyrissjóð.

 

Þarf ég að greiða í lífeyrissjóð?

Öllum launþegum og sjálfstætt starfandi atvinnurekendum á aldrinum 16-70 ára er skylt að greiða iðgjald í lífeyrissjóð. Lágmarks iðgjald er 15,5%, launþegi greiðir 4% og vinnuveitandi greiðir að lágmarki 11,5%.